Um NTC

NTC ehf. er fyrirtæki sem hefur í meira en 40 ár verið leiðandi í innflutningi, framleiðslu og sölu á tískufatnaði á Íslandi. Fyrirtækið er byggt á grunni heildsölu sem var stofnuð um miðja síðustu öld en verslunarrekstur hófst árið 1976 þegar verslunin Sautján opnaði á Laugavegi 46. NTC er skammstöfun á nafninu Northern Trading Company. 

Fjöldinn í NTC

NTC er lifandi og fjölbreytt fyrirtæki sem starfrækir 12 eigin verslanir á höfuðborgarsvæðinu, saumastofu í Reykjavík, eigin fataframleiðslu erlendis og heildsölu sem selur fatnað til margra af betri tískuvöruverslunum á landsbyggðinni. Meðalfjöldi starfsmanna NTC er um 140.

NTC flytur inn fatnað og skó víðs vegar að í heiminum og eru flest vörumerkin vel þekkt og áberandi í Skandinavíu sem og á Bretlandseyjum, í Frakklandi og Bandaríkjunum.

Saga fyrirtækisins

Vöxtur fyrirtækisins hófst fyrir alvöru þegar NTC tók þátt í opnun Kringlunnar, fyrstu verslunarmiðstöðvar á Íslandi, árið 1987. Þá opnaði Sautján nýja verslun en fljótlega fjölgaði verslunum þegar bæði SMASH og GS Skór opnuðu. Í dag eru verslanir NTC í Kringlunni sjö talsins og þar er einnig staðsett skrifstofa, vörumóttaka og lager.
 
NTC og Galleri Sautján hafa alla tíð verið órjúfanlegur partur af verslun á Laugaveginum en fyrsta verslun Galleri 17 opnaði þar árið 1976. Árið 1991 flutti Sautján í þá nýuppgert húsnæði að Laugavegi 91 og var þar til ársins 2010. 

Árið 1999 keypti NTC rótgrónu verslunina EVA-Galleri á Laugaveginum og var EVA svo flutt í nýtt og glæsilega innréttað verslunarrými að Laugarvegi 26 árið 2010.


Árið 2005 keypti NTC Retro í Smáralind en sú verslun var fyrsta verslun NTC í Smáralind. Í dag eru þrjár verslanir NTC í Smáralind en þær eru Karakter og GS Skór ásamt glæsilegri verslun Galleri Sautján sem opnuð var í nóvember 2009.